Getum við aðstoðað?

Formleg starfsemi Almenna – Lífsverks hafin

13. janúar 2026

Formleg starfsemi Almenna – Lífsverks hafin

Starfsemi Almenna – Lífsverks lífeyrissjóðs er nú formlega hafin og nafni sjóðsins breytt í samræmi við samþykktir sameinaðs sjóðs. Samkeppniseftirlitið hefur nú lokið athugun sinni á samruna án íhlutunar en áður hafði Fjármála- og efnahagsráðuneyti staðfest samþykktir sjóðsins.

Starfsfólk Almenna – Lífsverks er þakklátt fyrir jákvæð viðbrögð sjóðfélaga beggja sjóða við sameiningu sjóðanna.

Sameiningarverkefni ganga vel, en búast má við því að verkefnum tengdum samrunanum ljúki á fyrri hluta ársins 2026. Stefnt er að sem minnstri röskun á upplýsingum til sjóðfélaga á meðan unnið er að samræmingu kerfa. Sjóðurinn bendir sjóðfélögum sínum jafnframt á að opnuð hefur verið sérstök síða með fréttum og ýmsum upplýsingum um framvindu sameiningar og öðrum atriðum sem skipta máli fyrir sjóðfélaga: Sameining Lífsverks og Almenna

Lífeyrisgreiðslur í janúar
Almenni – Lífsverk greiðir lífeyri í byrjun janúar  (fyrirfram) í samræmi við samþykktir. Sjóðfélagar Lífsverks, sem áður fengu greiddan lífeyri í lok mánaðar, munu því fá lífeyri greiddan í lok desember og svo aftur í byrjun janúar. Framvegis verður lífeyrir hvers mánaðar greiddur fyrirfram eða í byrjun mánaðar.

Kynningarfundur í janúar
Almenni – Lífsverk býður sjóðfélögum á kynningarfund um sameininguna þriðjudaginn 27. janúar á Hilton Nordica, kl. 17:00. Á fundinum verður sérstök kynning á ávöxtunarleiðum séreignarsjóðs og farið yfir flutt og framtíðarréttindi í sameinuðum samtryggingarsjóði. Fundinum verður jafnframt streymt á heimasíðu sjóðsins og upptaka frá honum mun lifa áfram.  Nánari upplýsingar um fundinn verða birtar síðar.

Fundir með ráðgjafa
Sjóðfélögum sem vilja nánari upplýsingar er bent á að þeir eru velkomnir á skrifstofu sjóðsins til að hitta ráðgjafa. Mælt er með að fólk panti tíma með því að smella hér

Ný merking sett upp
Merki sameinaðs sjóðs hefur verið sett utan á húsnæði sjóðsins á Dalvegi 30 eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan.